Áskriftarskilmálar um hugbúnaðarþjónustu
Áskriftarskilmálar þessir gilda um notkun viðskiptavinar Origo hf., kt. 530292-2079, Borgartúni 37, 105 Reykjavík (einnig vísað til Origo sem „þjónustuveitanda“) á hugbúnaði og umhverfi sem vísað er til sem „CCQ gæðastjórnunarkerfis“ eða „CCQ – Cloud compliance and quality“ (einnig vísað til „CCQ“).
CCQ er aðgengilegt viðskiptavinum, sem keypt hafa áskrift, í gegnum skýjaþjónustu til notkunar við hlítingu á reglum og gæðastjórnun fyrirtækja.
1. SKILGREININGAR
1.1 Skilgreining og túlkun ákvæða í skilmálum þessum skal vera eftirfarandi:
Gögn viðskiptavinar: Þau gögn sem færð eru inn í hugbúnaðarþjónustu af viðskiptavini, skráðum notendum, eða af hálfu þjónustuveitanda fyrir hönd viðskiptavinar í þeim tilgangi að nota hugbúnaðarþjónustuna eða auðvelda notkun viðskiptavinar á þjónustunni.
Hugbúnaður: Hugbúnaðarforrit sem er hluti af hugbúnaðarþjónustu þjónustuveitanda.
Hugbúnaðarþjónusta: Áskriftarþjónusta sem veitir viðskiptavini aðgang að hugbúnaði þjónustuveitanda samkvæmt samningi þessum á vefslóðinni www.ccq.cloud. Áskrift sú sem viðskiptavinur kaupir hverju sinni afmarkar umfang þeirrar hugbúnaðarþjónustu sem þjónustuveitandi veitir viðskiptavin. Viðskiptavinur getur þannig auk grunnáskriftar að CCQ keypt viðbótareiningar við kerfið sem og Justly Pay hugbúnaðarkerfi þjónustuveitanda. Vísað er sameiginlega til áskriftarþjónustu viðskiptavinar, eins og hún er á hverjum tíma, sem „hugbúnaðarþjónustu“.
Notendaáskrift: Sú notendaáskrift sem viðskiptavinur kaupir í samræmi við ákvæði 6 og veitir skráðum notendum aðgang og heimild til notkunar á hugbúnaðarþjónustunni í samræmi við skilmála þessa.
Skráður notandi: Það starfsfólk, sjálfstæðir verktakar eða aðrir sem viðskiptavinur hefur veitt heimild til notkunar á hugbúnaðarþjónustu þjónustuveitanda.
Trúnaðarupplýsingar: Þær upplýsingar sem gæta skal trúnaðar um og eru merktar sem trúnaðarupplýsingar eða þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 9 í skilmálum þessum.
Veira: Hvers konar hlutur eða tæki (þ.m.t. hugbúnaður, kóði, skjal eða forrit) sem getur: komið í veg fyrir, valdið skerðingu eða á annan hátt haft skaðleg áhrif á starfsemi hvers kyns hugbúnaðar, vélbúnaðar eða nets, hvers konar fjarskiptaþjónustu, búnað eða net eða hvers kyns þjónustu eða tæki; komið í veg fyrir, valdið skerðingu eða á annan hátt haft neikvæð áhrif á aðgang að eða starfsemi forrits eða gagna, þ.á.m. áreiðanleika hvers konar forrita eða gagna (hvort sem það er endurröðun, breyting eða eyðing forrits eða gagna í heild sinni eða á annan hátt); eða haft skaðleg áhrif á upplifun viðskiptavinar, þ.m.t. ormar, trojan hestar, veirur eða aðrir svipaðir hlutir eða tæki.
Viðskiptatími: Frá kl. 8-17 að íslenskum staðartíma alla virka daga.
1.2 Tilvísun til ,,skriflegs“ eða ,,skriflega“ skal jafnframt taka til tölvupósta.
2. NOTENDAÁSKRIFT
2.1 Með fyrirvara um að viðskiptavinur kaupi notendaáskrift í samræmi við ákvæði 6 og þær takmarkanir sem settar eru fram í ákvæðum skilmála þessara, veitir þjónustuveitandi viðskiptavini á grundvelli þessara skilmála heimild til að veita skráðum notendum leyfi til notkunar á hugbúnaðarþjónustu á meðan að áskriftartímabili stendur, þó eingöngu til notkunar fyrir innri fyrirtækjarekstur viðskiptavinar.
2.2 Leyfi viðskiptavinar felur ekki í sér einkarétt (e. non-exclusive), framseljanleg réttindi eða réttindi til að veita þriðja aðila nytjaleyfi á grundvelli réttinda viðskiptavinar (e. Sub-licences).
2.3 Í tengslum við skráða notendur, samþykkir viðskiptavinur eftirfarandi:
(a) hver notendaáskrift skal aðeins tilheyra einum skráðum notanda og
(b) tengist notendur ekki með Active Directory auðkenningu skal hverjum skráðum notenda vera skylt að velja öruggt lykilorð fyrir notkun hans á hugbúnaðarþjónustu og ber ennfremur að gæta trúnaðar um lykilorð sitt.
3. SKYLDUR ÞJÓNUSTUVEITANDA
3.1 Þjónustuveitandi skal á meðan á áskriftartímabili stendur gera hugbúnaðarþjónustu aðgengilega fyrir viðskiptavin í samræmi við skilmála þessa.
3.2 Þjónustuveitandi skal leitast við að gera hugbúnaðarþjónustu aðgengilega 24 klst. á dag, sjö daga vikunnar, að undanskildum eftirfarandi tilfellum:
(a) þegar fyrirfram skipulagt viðhald á sér stað utan viðskiptatíma sem tilkynnt er fyrirfram, og
(b) þegar viðhald á sér stað vegna óvæntra atvika sem þarfnast lagfæringar samstundis.
3.3 Verði óeðlileg röskun á virkni hugbúnaðar sem er á ábyrgð þjónustuveitanda skal hann lagfæra hugbúnað eins fljótt og auðið er svo hann fullnægi skilmálum þessum.
3.4 Þjónustuveitandi ber ekki ábyrgð á röskun í hugbúnaði sem rekja má til þess að ekki var farið eftir leiðbeiningum þjónustuveitanda við notkun á hugbúnaðinum eða gerðar hafa verið breytingar á honum af öðrum aðila en þjónustuveitanda eða fulltrúa á hans vegum.
4. SKYLDUR VIÐSKIPTAVINAR
4.1 Viðskiptavinur skal bera ábyrgð á að aðeins skráðir notendur hafi aðgang að hugbúnaðarþjónustu í samræmi við ákvæði skilmála þessa. Verði tjón í tengslum við óheimilan aðgang skal viðskiptavinur bera ábyrgð á því tjóni.
4.2 Viðskiptavini er óheimilt að nálgast, hýsa, dreifa eða senda einhvers konar veiru, eða annað efni við notkun á hugbúnaðinum sem:
(a) er ólöglegt, skaðlegt, ógnandi, ærumeiðandi, klámfengið, brotlegt eða áreitandi,
(b) stuðlar að ólöglegu ofbeldi,
(c) felur í sér mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns, litarhafts, trúarbragða, kynhneigðar, fötlunar, eða
(d) er á annan hátt ólöglegt eða veldur skaða eða tjóni á einstaklingum eða eignum.
4.3 Viðskiptavini er jafnframt óheimilt að:
(a) reyna að afrita, breyta, gera eftirrit, búa til afleidd verk, ramma, endurspegla, útgefa, niðurhala, birta, flytja eða dreifa öllum eða einhverjum hluta af hugbúnaðinum í einhverju formi eða miðli, eða með hvaða hætti sem er,
(b) reyna að bakþýða (e. de-compile), baksmala (e. disassemble), bakhanna (e. reverse engineer) eða á annan hátt breyta hugbúnaðarþjónustu svo mannlegt skilningarvit geti greint virkni hans, eða
(c) fá aðgang að allri eða einhverjum hluta hugbúnaðarþjónustunnar í þeim tilgangi að gera aðra vöru eða hugbúnaðarþjónustu sem er í samkeppni við þessa hugbúnaðarþjónustu.
4.4 Viðskiptavinur skal gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir óheimilan aðgang að eða notkun á hugbúnaðarþjónustunni. Viðskiptavinur skal í öllum tilvikum tilkynna þjónustuveitanda samstundis ef hann verður var við óheimilan aðgang eða notkun.
5. ÞJÓNUSTUBEIÐNIR OG FYRIRSPURNIR
Þjónustuveitandi tekur við þjónustubeiðnum og fyrirspurnum í tölvupósti eða símleiðis með eftirfarandi hætti:
Opnunartími Tækniborðs: | mán-fös: 08:00 – 17:00 (íslenskur tími – GMT) |
Tölvupóstur: | support@ccq.cloud |
Símanúmer: | (+354) 516-1600 |
6. GREIÐSLUR
Viðskiptavinur skal greiða umsamin mánaðargjöld eða á grundvelli gjaldskrár þjónustuveitanda. Mánaðargjöld skulu greidd fyrirfram einn mánuð í senn út frá mælingum á umfangi og fjölda notenda.
Gjaldskrá tekur breytingum eftir ákvörðun þjónustuveitanda. Þjónustuveitandi skal tilkynna um allar verðbreytingar til hækkunar eða lækkunar með 20 daga fyrirvara áður en þær verða reikningsfærðar.
Ef nýjum einingum er bætt við kerfið, viðbótarþjónusta er keypt, gagnamagn fer yfir skilgreind mörk eða notendum fjölgað breytir það gjöldum fyrir næsta heila mánuð eftir að slík breyting á áskrift á sér stað.
7. HUGVERKARÉTTUR
Þjónustuveitandi á einkarétt á öllu hugverki sem tengist hugbúnaðinum, s.s. einkaleyfum, höfundarétti, gagnagrunnsrétti (e. database right), viðskiptaleyndarmálum (e. trade secret), sérþekkingu (e. know-how) og vörumerkjarétti. Einkarétturinn tekur einnig til allra breytinga, uppfærslna og nýrra útgáfa sem kunna að koma síðar.
8. PERSÓNUVERND
8.1 Viðskiptavinur telst ábyrgðaraðili allra þeirra persónuupplýsinga sem hann, eða aðili á hans vegum, færir inn í hugbúnaðinn í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 („persónuverndarlög“). Ber viðskiptavinur þannig ábyrgð á lögmæti, áreiðanleika, heilleika og gæðum upplýsinganna.
8.2 Í tengslum við þjónustu þá sem þjónustuveitandi veitir viðskiptavini á grundvelli þessara skilmála, þ.á.m. hýsingu á kerfinu og tæknilegri aðstoð, kemur þjónustuveitandi fram sem vinnsluaðili í skilningi persónuverndarlaganna.
8.3 Um vinnslu þjónustuveitanda á persónuupplýsingum ábyrgðaraðila á grundvelli þessara skilmála gilda persónuverndarskilmálar þjónustuveitanda sem aðgengilegir eru hér. Með samþykki á áskriftarskilmálum þessum samþykkir viðskiptavinir jafnframt umrædda vinnslusamningsskilmála þjónustuveitanda.
9. TRÚNAÐARSKYLDA
9.1 Samningsaðilar eru bundnir trúnaði vegna upplýsinga sem þeir kunna að verða áskynja í tengslum við notkun viðskiptavinar á hugbúnaðinum. Til trúnaðarupplýsinga teljast allar upplýsingar sem merktar eru sem slíkar eða þær upplýsingar sem einkaréttur er á. Til trúnaðarupplýsinga teljast einnig upplýsingar sem tengjast kerfi þjónustuveitanda, niðurstöður hvers kyns prófana á kerfinu og gögn viðskiptavinar sem geymd eru í kerfinu.
9.2 Trúnaðarskylda nær til alls starfsfólks beggja aðila. Trúnaðarskyldan skal vera í gildi á meðan á áskriftartíma stendur og einnig eftir lok áskriftar. Trúnaðarskylda starfsfólks aðila, þjónustuveitanda og viðskiptavinar, skal jafnframt halda gildi sínu þó þeir hætti störfum.
10. TAKMÖRKUN Á ÁBYRGÐ OG BÓTASKYLDA
10.1 Viðskiptavinur skal einn bera ábyrgð á þeim niðurstöðum eða árangri sem verður vegna notkunar á hugbúnaðarþjónustu og á öllum þeim ályktunum sem dregnar verða af þeirri notkun. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir að notkun á hugbúnaðarþjónustunni tryggir ekki hlítingu við nokkur gildandi lög eða reglur í nokkurri lögsögu. Þjónustuveitandi ber enga ábyrgð á tjóni sem verður vegna rangra upplýsinga, leiðbeininga eða annarra fyrirmæla sem viðskiptavinur telur sig hafa fengið í tengslum við notkun á hugbúnaðarþjónustunni, nema viðskiptavinur geti sannað að upplýsingarnar, leiðbeiningarnar eða fyrirmælin hafi sannanlega verið fengin frá þjónustuveitanda.
10.2 Þjónustuveitandi getur ekki ábyrgst að notkun viðskiptavinar á hugbúnaðinum verði án truflana eða að hugbúnaðarþjónustan muni uppfylla aðrar kröfur viðskiptavinar en þær sem fram koma í skilmálum þessum.
10.3 Þjónustuveitandi skal bera ábyrgð á og vera bótaskyldur vegna fjárhagslegs beins tjóns sem viðskiptavinur hefur orðið fyrir og rekja má til saknæmrar háttsemi þjónustuveitanda er felst í broti á skyldum sínum samkvæmt skilmálum þessum. Þjónustuveitandi ber ekki ábyrgð á og er ekki bótaskyldur vegna óbeins og/eða afleidds fjártjóns viðskiptavinar sem leiðir af beina tjóninu eða ófjárhagslegs/afleidds fjártjóns viðskiptavinar, sem falist getur í, en takmarkast ekki við, tekjumissi, hagnaðarmissi eða tapaða viðskiptavild, glötun á upplýsingum eða rafrænum gögnum, skemmdum á tölvukerfi, sem leiða kann af hugbúnaðinum eða notkun á honum.
10.4 Fjárhæð skaðabóta vegna hugsanlegrar bótaskyldu þjónustuveitanda samkvæmt skilmálum þessum skal í öllum tilvikum að hámarki nema þeirri fjárhæð sem viðskiptavinur hefur greitt þjónustuveitanda á síðustu 12 mánuðum áður en hið bótaskylda atvik kom til.
11. ÓVIÐRÁÐANLEG YTRI ATVIK (,,FORCE MAJEURE“)
Hvorugur samningsaðili skal teljast hafa vanefnt skilmála þessa ef vanefnd má rekja til ytri atburða eða aðstæðna sem teljast óviðráðanlegir (,,Force Majeure“). Til óviðráðanlegra ytri atburða eða aðstæðna teljast t.d. stríð eða sambærilegt ástand, náttúruhamfarir s.s jarðskjálfta, eldgos, gasmengun, flóð, eldur, bruni og önnur atvik af náttúrunnar höndum sem aðilar hafa hvorki valdið eða hafa áhrif á, verkföll starfsfólks sem áhrif hafa á efndir samnings þessa, farsóttir eða ástand vegna sjúkdóma sem hindra efndir samkvæmt skilmálum þessum.
12. GILDISTÍMI SKILMÁLA
12.1 Í áskriftarferli er viðskiptavinur beðinn um að samþykkja skilmála þessa og taka þeir þá þegar gildi gagnvart viðskiptavini og þeim notendum sem hann veitir aðgang að kerfinu. Skilmálarnir teljast jafnframt hafa verið samþykktir um leið og viðskiptavinur hefur notkun á hugbúnaðarþjónustunni.
12.2 Skilmálarnir skulu gilda svo lengi sem viðskiptavinur kaupir áskrift að hugbúnaðarþjónustunni og svo lengi sem viðskiptavinur notar kerfið.
12.3 Báðir aðilar skulu hafa rétt til að segja áskriftinni upp og skal uppsagnarfrestur vera einn mánuður og skal uppsögn þá miðast við næstu mánaðarmót.
12.4 Báðir aðilar hafa heimild til að rifta áskriftinni með skriflegri tilkynningu til gagnaðila ef gagnaðilinn vanrækir verulega skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum eða verður ógjaldfær.
12.5 Við lok áskriftar skulu öll þau leyfi sem veitt hafa verið viðskiptavini og notendum kerfisins samstundis falla úr gildi og lokað verður fyrir aðgang viðskiptavinar að hugbúnaðarþjónustu. Viðskiptavinur hefur tækifæri til að hlaða niður öllum gögnum í eigu hans frá hugbúnaðarþjónustunni áður en áskrift lýkur.
13. BREYTINGAR Á SKILMÁLUM
Þjónustuveitandi áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða reglugerðum eða vegna breytinga á þjónustunni. Allar breytingar á skilmálunum skulu tilkynntar viðskiptavin. Verði gerðar breytingar á skilmálunum sem hafa áhrif á réttindi og skyldur viðskiptavinar skulu slíkar breytingar ekki taka gildi fyrr en að ákveðnum tíma liðnum og samþykki viðskiptavinur ekki slíkar breytingar skal hann hafa rétt til að segja upp þjónustunni.
14. FRAMSAL
Viðskiptavini er óheimilt án skriflegs samþykkis þjónustuveitanda að úthluta, yfirfæra, úthýsa eða með einhverjum öðrum hætti framselja réttindi eða skuldbindingar samkvæmt skilmálum þessum. Þjónustuveitandi skal hafa rétt til að framselja réttindi sín og skyldur til dótturfélaga sinna með tilkynningu þar um til viðskiptavinar. Þá hefur þjónustuveitandi heimild til að fela undirverktökum að sinna afmörkuðum þjónustuþáttum, sbr. þó ákvæði vinnslusamningsskilmála þjónustuveitanda hvað varðar vinnslu undirverktaka á persónuupplýsingum.
15. EKKI STOFNAÐ TIL SAMEIGNAR
Ekkert í skilmálum þessum skal túlkað á þann veg að mynduð hafi verið sameign með aðilum.
16. GILDANDI LÖG OG LÖGSAGA
Íslensk lög skulu gilda um túlkun á skilmálum þessum. Rísi ágreiningur vegna skilmála þessara skal fyrst gera tilraun til að leita sátta. Reynist sáttameðferð árangurslaus skal reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.