„Ég varð fyrir netsvikum“ – Er kominn tími til að vinnuveitendur taki samfélagslega ábyrgð?
Í síbreytilegu samfélagi er mikilvægt að vinnuveitendur tryggi öryggi og velferð starfsfólks síns. Þrátt fyrir að við höfum náð tökum á ýmsum áskorunum, líkt og netsvikum og COVID-19, spretta sífellt fram nýjar áskoranir sem kalla á aukna vitund og skýra viðbragðsáætlun.
En hvar liggja mörkin á milli samfélagslegrar ábyrgðar vinnuveitenda annars vegar og hlutverk lögreglu hins vegar?
Dæmisaga: Áhrif netsvika á vinnustaði
Hildur, þjónustufulltrúi hjá stóru fyrirtæki, féll fyrir netsvikum þegar hún fékk falsaðan tölvupóst sem virtist vera frá yfirmanni hennar. Eftir að hafa uppfært bankaupplýsingar sínar komst hún að því að launin hennar hefðu farið á óþekktan reikning. Áfallið var það mikið að hún þurfti að taka sér tveggja vikna frí frá vinnu, sem jók álag á samstarfsfólk hennar.
Hvað ef fleira starfsfólk hefði orðið fyrir svipuðum árásum samtímis? Er þetta lögreglumál eða á ábyrgð vinnuveitenda? Slík staða gæti ekki aðeins valdið fjárhagslegum skaða og andlegu álagi hjá starfsfólki, heldur hefði einnig haft alvarleg áhrif á starfsemi og orðspor fyrirtækisins.
Í þessu samhengi gegnir samfélagsleg ábyrgð vinnuveitenda veigamiklu hlutverki. Ef umtalsverður fjöldi starfsfólks verður fyrir svikum er það ekki aðeins lögreglumál, heldur er það jafnframt á ábyrgð vinnuveitenda að tryggja vernd starfsfólks.
Samspil upplýsingaöryggis, gæðastjórnunar og heilsu, öryggis og vellíðan starfsfólks skiptir miklu máli þegar á reynir
Undanfarið hafa fyrirtæki lagt mikla áherslu á að styrkja upplýsingaöryggi sitt og veita starfsfólki fræðslu og þjálfun í því hvernig ætti að bregðast við netárásum. Hins vegar, ef við horfum á hvað er að gerast hjá nágrannalöndum okkar, styttist í að ný tegund netsvika muni ryðja sér til rúms á Íslandi og gæti þetta vandamál brátt orðið alvarlegt samfélagslegt vandamál.
Dæmisagan hér að ofan er aðeins ein birtingarmynd andlegs álags á vinnustað, og er sérstaklega tekin fram þar sem netsvik eru ný á nálinni. Aðrar áskoranir eins og kulnun, einelti og áreiti geta haft jafn, ef ekki alvarlegri afleiðingar á starfsfólk.
Fyrirtæki verða að sjá til þess að skýrir ferlar séu til staðar um hvernig eigi að bregðast við þessum áskorunum, að viðeigandi þjálfun og fræðsla sé til staðar og að starfsfólk hafi aðgang að nauðsynlegum úrræðum til að verjast þessum ógnum.
ISO 45001 – Heildstæð nálgun á vellíðan starfsfólks
ISO 45001 staðallinn miðar að því að tryggja heilsu, öryggi og velferð starfsfólks á vinnustað. Þó flestir tengi staðalinn aðeins við slys á vinnustað, þá tekur hann einnig á mikilvægum sálrænum þáttum eins og andlegu álagi, einelti og kulnun.
Toyota er frábært dæmi um fyrirtæki sem er umhugað um velferð og heilsu starfsfólks síns. Þau hafa skipt stefnu sinni í heilsuvernd, vinnuvernd og jafnréttisstefnu og með því að fá vottun í ISO 45001 vinna þau markvisst að því að skapa heilbrigt og öruggt vinnuumhverfi þar sem velferð starfsfólks er í forgrunn.
Skjalfesting og stöðugar umbætur
Gæðastjórnun er lykilþáttur þegar kemur að því að viðhalda stöðugum umbótum innan fyrirtækja. Með skjalfestingu verklags, skýrum ferlum og aðgengi að upplýsingum er hægt að setja fram skýra viðbragðsáætlun og verklag um hvað þarf að gera til að viðhalda öruggu starfsumhverfi. Gæðastjórnun kemur einnig í veg fyrir að þessi mikilvæga þekking tapist þegar starfsfólk lætur að störfum eða tekur að sér ný verkefni.
Vel útfært ferli er þó ekki nóg – það verður einnig að vera auðvelt í framkvæmd. Sem dæmi gerir aðgengileg ábendingagátt starfsfólki kleift að koma athugasemdum á framfæri – nafnlaust ef þörf krefur – og stuðlar þannig að öruggara vinnuumhverfi þar sem allir geta lagt sitt af mörkum til umbóta. Þessi stöðuga rýni og áhersla á framþróun er kjarninn í gæðastjórnun.
Við lifum á tímum þar sem vinnuveitendur bera aukna samfélagslega ábyrgð á öryggi og vellíðan starfsfólks síns. Með innleiðingu staðla eins og ISO 27001 (upplýsingaöryggi), ISO 9001 (gæðastjórnun) og ISO 45001 (öryggi, heilsa og vellíðan) ásamt því að innleiða stöðugar umbætur og nýta tæknilausnir sýna fyrirtæki í verki að þau leggja sig fram við að tryggja að starfsfólk sé öruggt, vel upplýst og tilbúið að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Þetta snýst um að skapa umhverfi þar sem starfsfólki líður vel, og samfélagið í heild græðir á því.