Nýtt útlit á CCQ Ábendingar

Nýtt útlit á CCQ Ábendingar

Við kynntum CCQ Ábendingar til leiks árið 2017 – nú sex árum síðar hefur það fengið notendavænna viðmót og andlyftingu. Lestu um þessa vegferð og hvað í hönnuninni er ætlað að gefa notendum betri upplifun.

Leiðin til að gera betur í dag en í gær

Ábendingar eru ókeypis ráðgjöf og í þessari vegferð vorum við einmitt að leita í okkar eigin garði með því að óska eftir ábendingum frá okkar viðskiptavinum. Kallað var saman í „Design Thinking“ fund þar sem við fengum notendur til okkar til að ræða:

1) Hvað er það sem böggar okkur mest í dag?

2) Hvaða tækifæri sjáum við í því sem böggar okkur mest?

3) Hvað er nauðsynlegt?

4) Hvernig lítur okkar draumaheimur út?

Þetta er klárlega leiðin því hver þekkir ábendingar betur en okkar helstu notendur? Við fengum frábærar undirtektir, hóparnir voru með puttann á púlsinum og komu sínum spennandi hugmyndum og tillögum á framfæri við okkur til að vinna áfram með.  

Við unnum svo með niðurstöður fundarins, flokkuðum niður og forgangsröðuðum. Skýrsla var send til þátttakenda með upplýsingum um drög að þróunarferli. Notendur voru þá upplýstir um hvers mætti vænta og hvaða óskir við gætum uppfyllt.

Við héldum áfram vinnunni með okkar hönnuði sem bjó til demó í Figma. Þetta er snjöll leið til að fá tilfinningu fyrir því hvernig lausnin kemur til með að líta út, án þess að þurfa að eyða löngum tíma í forritun. Þátttakendum var síðan boðið á kynningarfund, að þessu sinni í gegnum vefvarp á netinu. Þar fengu þau tækifæri til að koma með athugasemdir áður en vinnan við breytingar hófst.


Hverjar eru þá helstu nýjungar?

Helstu nýjungar eru fyrst og fremst nýtt útlit, nýir litir og notendavænni uppstilling á lýsigögnum, tökkum, uppsetningarskjölum og ferli í meðhöndlun ábendinga.

Hér má einnig nefna að við ráðleggjum öllum CCQ kerfisstjórum að koma skráningareyðublöðum af stað ef þið nú þegar eruð ekki að nota það. Það einfaldar nýja ferlinu og skráningaaðilum sem skrá ábendingar í gegnum einfalt eyðublað og skráningareyðublaðasíðu.

Meðal ábendinga frá þátttakendum má helst nefna:

Okkar notendur vildu setja stífari ramma um innsendar ábendingar. Svo við gerðum eftirfarandi breytingar: Enginn getur breytt upprunalegu efni eða innihaldi innsendra ábendinga. Úrlausnaraðili getur lesið en ekki breytt fyrirmælum frá ábyrgðaraðila og eftirfylgjandi getur lesið en ekki breytt fyrirmælum frá ábyrgðaraðila eða úrlausnaraðila. Önnur svæði haldast opin.

Hnitmiðað ferli með skýra tímalínu.

Notendur upplifðu gömlu flipa-leiðina ekki sem nægilega augljósa til að ná heildar upplýsingum hvar í ferlinu ábendingar voru staddar, hvað var gert og hver vann það hverju sinni.


Eldri flipatöflu hefur verið skipt út fyrir nýja tímalínu þar sem kemur skýrt fram í hvaða þrepi er verið að vinna. Að auki birtast upplýsingar ef þrepi hefur verið hafnað. Ef vomað er yfir rauðu spurningarmerki má sjá ástæðu höfnunar, sem reyndar má einnig sjá í vistunarsögu

Ferli sem samtal
Stafrænar staðfestingar og póstsendingar eru enn til staðar eins og í eldri útgáfu CCQ. Þegar ábending er á síðasta þrepi fær eftirfylgjandi gott yfirlit yfir alla reiti sem varða fyrirmæli frá ábyrgðaraðila, rótargreiningu og fyrirbyggjandi aðgerðir. Með því að smella á bólurnar í tímalínunni er hægt að ferðast á milli þrepa.

Neðst í skjalinu birtist nú takki til að senda skilaboð og annar fyrir vistunarsögu skjals. Hægt er að senda skilaboð á skráða notendur en einnig á aðila sem eru ekki notendur í CCQ.  Einnig er hægt að senda viðhengi með. Þessi virkni hefur alltaf verið til staðar en fór fram hjá mörgum því hún var frekar falin undir hnappnum Aðgerðir

Það er okkar stefna og markmið að alltaf gera betur í dag en í gær. Þannig breytum við leiknum. Ef þú ert sátt(ur) við þessar betrumbætur láttu þá endilega alla vita. En hafir þú ábendingu um eitthvað sem betur má fara sendu okkur þá línu á support@ccq.cloud.

Rithöfundur er Anna Maria Hedman, vörustjóri CCQ

Similar Posts